149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég segi að hv. stjórnarliðar vísi í hagspána þegar þeir eru að afsaka það að þeir þurfi eftir örfáa mánuði að setja fram nýja stefnu af því að hin var svo slæm segja þeir, og það stendur líka í greinargerðinni. Við þurftum að miða við hagspána, hún var svo bjartsýn.

Það er bara einhver afsökun. Auðvitað var hagspáin bjartsýn miðað við gefnar forsendur og það er viðmið sem ríkisstjórn notar og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra notar þegar hann leggur fram stefnuna en það er pólitík hvernig við metum veikleikana, hvernig við ætlum að hugsa fram í tímann og vera varkár þannig að við getum séð til þess að ríkissjóður verði sjálfbær. Núna erum við að keyra hann í mínus. (Forseti hringir.) Hann verður ekki sjálfbær næstu þrjú árin samkvæmt nýrri stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.