143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hinn dæmigerði útúrsnúningur í málflutningi, pólitíski útúrsnúningur. Hver gat skilið það svo hér að ég væri að segja að verkfallsrétturinn ætti ekki við og að launafólk í landinu ætti ekki að hafa verkfallsrétt? Er þetta ekki hinn dæmigerði samfylkingarspuni sem gjarnan er rætt um og eru svo sterk rök og margítrekuð dæmi um? Er það ekki það sem við erum að horfa hér framan í? (SII: Það er ekki rétt.) Ég held það.

Við eigum að hætta því. Að sjálfsögðu eigum við að virða verkfallsrétt. Þetta hefur ekkert með það að gera en verkfallsvopnið er misbeitt, og þá á ég við bitið í því, eftir því hvaða starfsstéttir eiga í hlut. Það er bara svoleiðis. Ákveðnar starfsstéttir leggja niður störf og þá hefur það mismunandi áhrif á mismunandi þætti samfélagsins. Það hefur gríðarlega víðtæk áhrif ef flugfólk okkar beitir því, það fólk sem gegnir þessum gríðarlega mikilvægu störfum í tengingu samgangna við landið — við erum eyland og aðstæður okkar eru sérstakar að þessu leyti.

Hvort þetta eru 5 þúsund manns eða 100 þúsund manns, það getur líka verið mismikil sem áhrifin eru á fólk og samfélög. Verkfallið í Vestmannaeyjum hafði mjög alvarlega afleiðingar fyrir það samfélag. Auðvitað verðum við að horfa á dæmin í hvert sinn. En gæti það verið, virðulegi forseti, að þessi málflutningur minni hlutans væri byggður á ákveðnum misskilningi? Mér fannst það koma fram í ræðu hv. þingmanns þegar hún sagði að sáttatillaga hafi ekki verið lögð fram. (Gripið fram í: Miðlunartillaga.) Miðlunartillaga hafi ekki verið lögð fram. Það er bara ekki rétt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef. (Gripið fram í: Sáttatillaga.) Var það sáttatillaga? (Gripið fram í: Það er …) Já, ókei. En það var lögð fram sáttatillaga og það er mat ríkissáttasemjara að ekki verði lengra haldið. Ég vil þá bara spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Vildi hún láta verkfallið á Vestmannaeyjaferjunni ganga miklu lengur og þá hve miklu lengur? Vill hún láta þetta flugmannaverkfall ganga miklu lengur og þá hve miklu lengur?