149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að hann hafi einmitt komið þarna inn á mikilvægan þátt, svo virðist sem ríkisstjórnin hlusti ekki nægilega vel á sérfræðinga sem leggja fram álit sín. Við sáum það í vinnu við gildandi stefnu að þar var varað við of mikilli bjartsýni af Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og fjármálaráði og þá veltir maður fyrir sér hvort það sé ekki áhyggjuefni ef ekki er hlustað á þá sem þekkja best til í ferðaþjónustunni. Nú hefur framkvæmdastjóri fyrirtækja í ferðaþjónustu bent á að kreppan sem ferðaþjónustan er að sigla inn í komi til með að verða dýpri. Talað er um allt að 18–20% samdrátt, sem er verulegur samdráttur, og þá verður maður aðeins áhyggjufullur í ljósi þess að ekki var hlustað á sérfræðingana þegar verið var að vinna í stefnunni hvaða áhrif það hafi þá að ákveðið vanmat virðist vera hvað ferðaþjónustuna varðar.

Mig langaði aðeins líka til að koma því að á þessum stutta tíma hvort hv. þingmaður hafi skoðað eitthvað sérstaklega þjóðarsjóðinn í þessu sambandi, hvort það eigi jafnvel að falla frá þeim áformum sem þar eru og nýta þá fjármuni sem voru ætlaðir í þjóðarsjóðinn til að fara í innviðauppbyggingu og fjárfestingar á vegum hins opinbera. Það er mikilvægt í samdrætti að hið opinbera stígi inn í með þeim hætti og ég spyr hvort hv. þingmaður hafi eitthvað hugsað út í það.