149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði í ræðu sinni á einhverjum tímapunkti í samhengi við aðra hluti sem hann sagði: Til hvers að hafa svona tillögu yfir höfuð? Ég verð að viðurkenna að ég velti því líka fyrir mér. Í fljótu bragði þegar maður heyrir stungið upp á því að gott sé að hafa einhverja stefnu finnst manni það góð hugmynd almennt, meira að segja í mínum flokki. En þá verður maður einmitt var við það að hér setjum við þessa stefnu aftur, þvert á við það sem markmiðið var, til að breyta stefnu sem var sett fyrir örfáum mánuðum þegar vitað var og var kvartað undan því í pontu að forsendurnar myndu ekki ganga upp. Þá er bent á hagspá Hagstofunnar og allt í góðu með það. Það þýðir ekkert að gagnrýna það svo sem. Eftir stendur að spáin gekk ekki eftir og fyrirsjáanlega gekk hún ekki eftir. Það er rétt að ekki er hægt að kenna yfirvöldum um loðnubrest og gjaldþrot WOW air. En það var samt komið inn í umræðuna á þeim tíma, kannski ekki nákvæmlega það, en að eitthvað slíkt gæti gerst og að blikur væru á lofti með að ferðaþjónustan væri í besta falli að ná toppnum og sennilega að fara eitthvað niður eins og hefur gengið eftir.

Síðan velti ég fyrir mér öðru sem er annar óvissuþáttur, sem ég held að við hv. þingmaður séum hreinlega sammála um og það er hvernig hægt sé að gera svona langtímaáætlanir, jafnvel stefnu eins og þessa, með gjaldmiðil sem við vitum fyrir víst að er óstöðugur, það er óumdeilt að hann sé óstöðugur, og þá með tilheyrandi keðjuverkunaráhrifum inn í hagkerfið í hvert sinn sem einhverjar breytingar verða á borð við þær sem við erum að upplifa núna. (Forseti hringir.) Þess vegna skil ég eftir spurninguna: Til hvers að hafa þetta ef við vitum að við getum ekki haft stöðugleikann sem þarf til að svona stefna geti mögulega staðist yfir það tímabil sem henni er ætlað að gera?