149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég velti einu fyrir mér út frá ræðu hv. þingmanns. Það er úr vöndu að ráða þegar full ástæða er til að reyna að örva hagkerfið, t.d. með arðbærum fjárfestingum eins og þingmaðurinn kom inn á í máli sínu. Við vorum að glíma við þann vanda í raun og veru að ríkisfjármálin örvuðu einmitt hagkerfið í þenslunni, í uppganginum, og þá var töluvert miklu af því svigrúmi sem ella hefði verið til eytt í aukinn grunnrekstur.

Við erum með ákveðnar fjármálareglur í lögum um opinber fjármál en vandinn við þær reglur, eins og ítrekað hefur verið bent á í gagnrýni á þær, alveg frá því að verið var að ræða þessi lög á sínum tíma, er að þessi dæmigerða íslenska sveifla í ríkisfjármálum þar sem útgjöld aukast verulega í efnahagsuppganginum til þess eins síðan að draga þurfi saman seglin að nýju þegar þrengir að og þá hafa þessar reglur ekki beislað útgjaldavöxtinn í neinum af þeim hagvaxtartímabilum sem við höfum haft til viðmiðunar. Sá mikli útgjaldavöxtur sem varð hér á árunum 2004–2007 rúmaðist vel innan þeirra reglna sem eru í lögunum. Það sama átti við um þann mikla vöxt sem varð á útgjöldum ríkissjóðs hagvaxtarskeiðið þar á undan, á árunum 1995–2000, og það sama á aftur við nú. Það var aldrei verið að rjúfa þær reglur eða þann ramma sem þessar útgjaldareglur settu ríkisfjármálunum en samt sem áður sjáum við alveg gegndarlausan vöxt í ríkisfjármálunum.

Hvað er til ráða að mati hv. þingmanns? Hvernig getum við breytt þessum viðmiðum til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig aftur og aftur?