153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:38]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu hér í dag. Ég tek undir margt af því sem hér hefur komið fram. Við erum að breyta sýn okkar á aðferðir, hugmyndafræði og annað er varðar fíknisjúkdóma. Skaðaminnkandi nálgun er eitthvað sem við getum ekki litið fram hjá lengur. Það verður að mæta fólki þar sem það er. Við sjáum þó ólíkar leiðir. En það sem ég held að við getum öll verið sammála um er að grunnurinn að þeirri leið sem við veljum að fara verður að byggja á gagnreyndum rannsóknum, upplýsingum og nýjustu upplýsingum sem vísindin bjóða okkur upp á. Á Íslandi hefur meðferð við fíknisjúkdómum löngum verið byggð á bandarísku módeli sem byggist fyrst og fremst á heilasjúkdómi. Í dag eru þessi viðhorf að breytast, sérstaklega í Evrópu. Við erum að horfa meira til félagslegra þátta, áfallasögu og annars, sem snýr myndinni dálítið við.

Mig langar að spyrja bara hér út í kosmósið: Hver er staðan á heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, setti af stað? Við getum engar ákvarðanir tekið fyrr en við höfum yfirsýn. Við heyrum alls konar sögur, við heyrum alls konar tölur, við höfum ólíkar skoðanir, ólíka sýn. Við þurfum að fá þessa heildarúttekt áður en við getum farið af stað í stefnumótun í málaflokknum.