Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og nefndarálitið og fagna því mjög að hv. þingmaður, sem er fulltrúi 2. minni hluta í allsherjar- og menntamálanefnd, leggi til að þetta frumvarp verði samþykkt. Ég sé að hér erum við með mál sem virðist vera mikil samstaða um meðal þingmanna. Það eru alla vega allir sem leggja hér til að málið verði samþykkt. Það hefur engu að síður endurspeglast ágætlega í þessari umræðu að þrátt fyrir að fólk sé samþykkt þessu núna, og hv. þingmaður kallar þetta einhvers konar krampakennd viðbrögð, þá taka líka allir undir að þetta er bráðabirgðalausn þangað til fundin verður heildstæðari lausn. En þegar kemur að því að ræða það er það nú svo að enn þá eru mjög skiptar skoðanir um það. Það urðum við líka mjög vör við í allsherjar- og menntamálanefnd þegar við tókum á móti gestum. Þar voru sumir fulltrúar frjálsra fjölmiðla sem töldu að það væri hægt að laga þetta bara einn, tveir og tíu með pennastriki, með því að grípa til mismunandi aðgerða, en þau voru bara ekki sammála um hvaða aðgerðir það væru. Þannig að það er auðvitað verkefni okkar hér.

Mig langar kannski að spyrja hv. þingmann — vegna þess að hann nefnir hér sérstaklega skýrslu frá 2018 um bætt rekstrarumhverfi, sem var unnin undir formennsku Björgvins Guðmundssonar, og við vísum reyndar líka í einmitt þá skýrslu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem við leggjum til að skoðað verði frekar það sem þar er bent á. Eitt af því sem var reyndar bent á var styrkjaumhverfi. Það er kannski eitt af því fáa sem hefur þó komið til kasta með þessum bráðabirgðaaðgerðum. En fyrsta spurning mín er: Styður Miðflokkurinn allar þær aðgerðir sem þar eru nefndar? Ein aðgerð sem þar er nefnd er t.d. að auka möguleika fjölmiðla á að auglýsa vörur sem í dag hefur verið bannað að auglýsa.