138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

málskotsréttur forseta Íslands.

[12:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Á umliðnum árum hafa úr þessum ræðustól verið haldnar margar og innblásnar ræður um synjunarvald eða málskotsrétt forseta Íslands samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla að leyfa mér að vitna til einnar slíkrar sem flutt var þann 21. júní 2004 þar sem ræðumaður gagnrýndi harðlega, með leyfi forseta:

„… að með einhverjum hætti hafi orðið að samkomulagi milli forustumanna stjórnarflokkanna að við endurskoðun stjórnarskrárinnar eigi fyrst og fremst að ráðast á 26. gr., fyrst og fremst að ráðast á málskotsréttinn og reyna að eyðileggja hann eða kippa honum til baka til að ríkisstjórnin þurfi aldrei framar að standa frammi fyrir þeirri niðurlægingu að verða algjörlega viðskila við sína eigin þjóð og standa eins og hún gerir núna án nokkurs stuðnings í þessu máli.“

Þessi fleygu orð mælti núverandi hæstv. utanríkisráðherra og þáverandi formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Hæstv. utanríkisráðherra hefur gengið manna harðast fram í því í gegnum tíðina, jafnt innan þings sem utan, að standa vörð um óbreytt synjunarvald forseta Íslands og flutt um það fjöldann allan af ræðum og hefur aldrei skipt um skoðun.

Nú ber hins vegar svo við að hæstv. forsætisráðherra hefur tekið, ef svo má segja, hæstv. utanríkisráðherra á kné sér og sett ofan í við hann með því að lýsa því yfir að afnema beri synjunarvald forseta Íslands og tilefnið þekkja auðvitað allir. Nú er ástæða til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort hann hafi skipt um skoðun og hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra um að afnema beri synjunarvald forsetans. Það skiptir auðvitað máli að upplýst sé hver stefna ríkisstjórnarinnar er varðandi synjunarvald forsetans. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki skipt um skoðun en það verður ekki annað séð (Forseti hringir.) en að ríkisstjórnin og ekki síður Samfylkingin sé klofin í afstöðu sinni til þessa máls.