153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Líkt og sumarið sem hefur látið bíða dálítið eftir sér hér á suðvesturhorninu þá hefur ríkisstjórnin ekki litið svo á að henni bæri að gera í rauninni nokkuð til að sporna við verðbólgunni. Varnaðarorð fjármálaráðs, helstu hagfræðinga Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, BHM, ASÍ og 13 stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa hingað til ekki fengið neitt á blessaða ríkisstjórnina. Hver ráðherrann hefur komið hingað upp á fætur öðrum og þráast við að horfast í augu við raunveruleikann. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margsagt okkur frá sínu uppáhalds orði, frumjöfnuði, sem er notað í annarri hverri setningu og benti einnig á veisluna dásamlegu sem ætti að vera öllu fólki augljós. Viðreisn hefur ítrekað kallað eftir aðhaldi í ríkisfjármálum og aðgerðum til að bregðast við stöðunni til að við náum líka að greiða niður vaxtakostnað og gera ríkissjóð sjálfbæran. Hæstv. forsætisráðherra sagðist berum orðum vera ósammála þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram af hálfu þeirra aðila sem ég taldi hér upp auk Viðreisnar. Hér stöndum við síðan, 13 stýrivaxtahækkunum síðar, og ríkisstjórnin er loksins búin að funda um aðgerðir. En þær eru ekki betur á veg komnar en svo að á fundi formanna stjórnmálaflokkanna nú í morgun var ekki hægt að greina frá inntaki þeirra því að það þyrfti frekari snúning í ríkisstjórninni og í þingflokkunum og meiri hluta fjárlaganefndar, eins og þessi staða hafi verið að teiknast upp bara núna í síðustu viku.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað breyttist? Það er auðvitað fagnaðarefni að ríkisstjórnin sé að vakna af draumsvefni um frumjöfnuð og hagvöxt, en hverju breytir það fyrir fólkið sem greiddi 130.000 kr. í afborgun af 40 millj. kr. láni fyrir ári en borgar nú 360.000 kr. af sama láni? Sinnuleysi forsætisráðherra og ríkisstjórnar kostar venjulegt fólk mörg hundruð þúsund krónur á hverjum degi. Hvað breyttist, virðulegi forseti, og hvers vegna átti þetta fólk (Forseti hringir.) ekki skilið heiðarlegra samtal um stöðuna fyrr?