Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Skildi ég hv. þingmann rétt þegar þingmaðurinn segir: Löggjafinn getur tekið það skref að hækka aldurinn, að gefa möguleika á að heilbrigðisstarfsfólk vinni lengur en til 70 ára. Löggjafinn er þess umkominn en ekki að breyta um leið lífeyrisviðmiðunum. Löggjafinn getur ekki tekið það skref á sama tíma. Mér finnst mjög undarlegt að skilja það eftir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hún vilji segja um t.d. umsögn BHM þar sem segir, með leyfi forseta:

„Því er það skýlaus krafa bandalagsins að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um að í stað þess að greiða mótframlag í skyldutryggingu beri launagreiðanda að greiða samsvarandi hlutfall af heildarlaunum, auk þess sem nemur séreignarframlaginu ef við á, ofan á launin ellegar inn í séreignarsjóð, í nánara samkomulagi við starfsmann.“

Þetta er hugmynd BHM en það sem verið er að leggja til, frú forseti, er að það megi hækka aldurinn. Heilbrigðisstarfsmenn geta unnið lengur en til 70 ára en þeir verða ódýrari starfsmenn fyrir stofnanirnar en þeir sem yngri eru. Það er það sem meiri hlutinn er að leggja til vegna þess að þetta atriði er skilið eftir um að lífeyrissjóður og laun og lífeyrissjóðsgreiðslur eiga að vera bundnar saman. Það er skrýtið fordæmi sem verið er að gefa hér, frú forseti, að slíta þetta í sundur.