Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég benti á í framsöguræðu minni þá tel ég þetta vera útfærsluatriði sem löggjafinn getur ekki einhliða ákveðið hvernig eigi að vera. Þetta þarf að vera í virku samtali. Hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða og við erum að stíga þetta skref til þess að sýna gott fordæmi með þessu. Meiri hlutinn beinir því til þar til bærra aðila, fjármálaráðuneytisins og heilbrigðisráðherra, að útfæra þetta svo að sómi sé að með þeim hagaðilum sem eiga sæti við þetta borð. Það er það sem meiri hlutinn er að leggja til, þ.e. að við getum ekki, án samtals við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina, ákveðið hvernig útfærslan á að vera á þessu. Það er það sem ég er að segja. Það er það sem við erum að gera hérna og þetta tekur gildi næstu áramót og það á að vera nægur tími til að bregðast við þessum áréttingum meiri hlutans um að það þurfi að útfæra þetta. Að sjálfsögðu erum við sammála um að allir þurfi að njóta jafnra kjara, jafnvel þótt fólk sé komið yfir sjötugt. Við gerum það hins vegar ekki hér einhliða í þessu máli að mati meiri hlutans og þess vegna leggjum við til að þetta verði útfært áður en bráðabirgðaákvæðið tekur gildi og að við hér séum ekki einhliða að kveða á um lífeyrisréttindi þessa hóps.