Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:58]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við hljótum að vera að komast á þann stað hér í þessum sal, þar sem lögin í landinu eru sett, að við ætlum að vinda ofan af gömlum skilningi á því hvað það þýðir að vera að niðurlotum kominn. Við velkjumst ekki í neinum vafa um það, við erum sammála um það, að jöfn laun skuli greidd konum og körlum á hvaða aldri sem þau kunna að vera. Við höfum fyrir mörgum árum og áratugum sammælst um það og erum smám saman að færast nær því. En auðvitað er mannkyninu ekki bara skipt í karla og konur. Það eru alls kyns önnur viðmið, alls konar aðrar skilgreiningar og ég trúi ekki öðru en að sú nefnd sem kannski ætti að vera að fjalla um þetta sérstaklega — ef það er ekki velferðarnefnd þá aðrar nefndir sem lúta að efnahags- og viðskiptamálum og öðru. Hér er skortur á tiltekinni stétt. Það er verið að biðla til hennar um að koma en það á að niðurlægja hana í leiðinni. Segjum sem svo að það væri verið að biðja konur um að koma til starfa á sérstökum vettvangi — en þið getið ekki fengið sömu laun og karlar, því miður. Myndi ekki vera öskrað hér í samfélaginu yfir slíkum boðum eða ef við ætluðum að bjóða samkynhneigðum upp á allt önnur launakjör en öðrum? Og við erum að fárast yfir nýrri löggjöf í Úganda; samkynhneigðum er hægt að skella í fangelsi og jafnvel svipta þá lífi.

Drífum okkur upp úr þessari gömlu hugsun. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það sé löngu tímabært að klára þessi mál í eitt skipti fyrir öll þannig að við þurfum ekki að bera kinnroða af ruglinu?