140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér fannst koma fram í ræðu hans að verið væri að rústa því kerfi sem við höfum búið við en hann kom enn fremur fram með ákveðnar athugasemdir um margt sem er í því kerfi og að margt mætti bæta. Þar nefndi hann að hugsanlega ætti allur fiskur að fara á markað. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái það fyrir sér og hvort það ætti að vera strax eða á einhverju tímabili.

Einnig vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann vilji að kerfið verði áfram byggt upp þannig að strandveiðar verði, byggðakvóti, línuívilnun og hvort hann vilji að það verði opinbert kvótaþing, og ef ekki, hvað hann sjái því til fyrirstöðu að leiga á aflaheimildum fari gegnum opinbert kvótaþing.