144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, að þegar þingstörfin eru komin í svona mikið rugl verðum við að taka það alvarlega og setjast niður og reyna að finna út úr málunum.

Nú kom samgönguáætlun inn í þingið, allt of seint. Það er verið að boða fólk til fundar utan af landi og það svarar þinginu og segir: Þetta er ekki boðlegur fyrirvari, við getum ekki mætt með svona stuttum fyrirvara. Fólk frá Austurlandi og Norðurlandi sem á hagsmuna að gæta í þessu máli. Og það þarf mikið til, held ég, að fólk svari svona, því að almennt eru allir tilbúnir að koma og greiða fyrir störfum þingsins. En þetta sýnir bara í hvers konar rugl við erum komin hérna. Við getum ekki verið að boða fólk á nefndarfundi með sólarhringsfyrirvara, fólk sem býr hinum megin á landinu.

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að við höfum formenn nefnda, það er til að einhver stýri fundunum, haldi utan um málin. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti getur tekið sér það vald að stýra þinginu og er maður sátta og ég vil hvetja hann til dáða í þessu máli vegna þess að stjórnarherrunum er ekki til þess treystandi.