144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði nú ætlað mér að tala um það hvernig ríkisstjórnin er að mínu mati háskalega nærri því að keyra út af brautinni í efnahagsmálum, en ég get ekki annað en mótmælt þessari fáheyrðu framsetningu framsóknarmanna á útkomu svonefndrar 110%-leiðar. Þetta er þvílík steypa sem hér er borin á borð að það hálfa væri nóg. Það er með endemum að leggja að jöfnu fjáraustur úr ríkissjóði til fólks sem er í stórum stíl sannarlega ágætlega efnað fyrir og eykur þar með auð sinn, við það sem gert var í 110%-leiðinni. 110%-leiðin var bæði eigna- og tekjutengd. Hún snerist um að færa niður kröfur á fólki sem var í bullandi yfirveðsettum eignum og átti ekki aðrar eignir á móti því að þær voru dregnar frá. Það var meira að segja gagnrýnt hversu hart t.d. Íbúðalánasjóður gekk fram í því að tína til allar aðrar eignir og lækka niðurfærsluna sem þeim nam. Hvað segir þetta um þá sem fengu þær háu fjárhæðir sem þingmenn Framsóknarflokksins veifa? Þeir voru í bullandi yfirveðsettu húsnæði og áttu engar eignir (Gripið fram í.)— áttu engar eignir. Og hvað fengu þeir, hv. þm. Karl Garðarsson? Þeir fengu ekki neitt. Bankar og lífeyrissjóðir felldu niður skuldir vegna þess að viðkomandi voru gjaldþrota og skuldirnar þar af leiðandi væntanlega óinnheimtanlegar. Þess vegna gátu lífeyrissjóðir m.a. réttlætt þátttöku sína í aðgerðinni. Eða halda menn að talsmenn lífeyrissjóðanna hefðu farið að gefa óviðkomandi aðilum peninga af innheimtanlegum kröfum? Nei, það var ekki þannig.

Að bera þetta saman við aðgerðina nú sýnir því annaðhvort alveg ótrúlega fáfræði eða ósvífni nema hvorttveggja sé. Þetta eru algerlega ósambærilegir hlutir og eiga ekkert skylt, það liggur í eðli máls. Og ef hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilja halda þessu áfram, forseti, þá er ég meira en reiðubúinn í þá rökræðu. Tökum almennilega rökræðu um þetta. Þið eruð búin að halda nóg af steypu að þjóðinni og lofa henni vitleysu undanfarin ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)