144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla hér undir störfum þingsins að ræða störf þingsins. Ég hef setið hér á þingi frá því í maí 2007 og í raun hefur lítið sem ekkert breyst í störfum þingsins frá þeim tíma. (Gripið fram í.) Mig langar að varpa hér fram hugmynd um breytingar á störfum þingsins. Þær eru tvenns konar. Í fyrsta lagi að eitt þing eða svo fari í að endurskoða þau lög sem sett hafa verið í gegnum tíðina í stað þess að setja ný. Það virðist vera meginmál þingsins að koma fram með bunka af lögum á hverju þingi og bæta í pokann án þess að skoða hvort og þá hvernig önnur lög virka og hvort taka mætti til í þeim.

Í öðru lagi varpa ég fram þeirri róttæku hugmynd hvort það væri möguleiki í kosningunum árið 2017 að lögbinda að þá sitji eingöngu konur á þingi í tvö ár, frá 2017 til 2019, þ.e. að kosið verði til kvennaþings til tveggja ára. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Konur fá þá tækifæri til að sýna fram á hvort það sé í raun satt, sem haldið er fram, að vinnubrögð kvenna séu með öðrum hætti en vinnubrögð karla. Þingið yrði stutt, það yrði tvö ár, og að loknu því þingi gæti þjóðin sjálf að sjálfsögðu og þeir sem að kosningu koma velt því fyrir sér hvort skynsamlegra væri að hafa kvennaþing. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)