144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér kastar hv. þingmaður fram mjög áhugaverðri hugmynd sem ég held að við ættum að taka til alvarlegrar skoðunar.

Ég kem hér upp í dag vegna þess að ég hef mjög miklar áhyggjur af því á hvaða leið íslenskt samfélag er. Ég hef sérstaklega miklar áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins og ég held að ég sé alls ekki ein um það. Félagsmenn BHM eru búnir að vera í verkfalli svo vikum skiptir og þau tíðindi berast að hátt í 30 geislafræðingar hafi sagt upp störfum á Landspítalanum. Það er næstum því helmingur allra starfandi geislafræðinga. Hjúkrunarfræðingar eru svo búnir að vera í verkfalli í rétt tæpa viku. Ég hef miklar áhyggjur af því að ef ekki verður samið á allra næstu dögum eða ef Alþingi mundi nú detta í huga að fara að setja lög á verkfall, þá segi enn fleiri upp og fari annaðhvort úr landi eða á annan starfsvettvang. Því megum við alls ekki við sem samfélag.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spurði í gær hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann teldi ástæðu til þess að fara út fyrir rammann og minnti þá á tillögu sem stjórnarandstaðan lagði fram meðan á læknaverkfallinu stóð um að skipuð yrði sáttanefnd með aðkomu deiluaðila og ríkissáttasemjara til að leysa málið. Hæstv. ráðherra tók svo sem ekki illa í þá hugmynd. Ég vil því leggja til að við á Alþingi tökum höndum saman þessa síðustu starfsdaga þingsins og leggjum okkar af mörkum og beitum okkur fyrir því, ef ekki semst bara hreinlega í dag, að svona sáttanefnd verði komið á (Forseti hringir.) svo eitthvað fari að gerast, fyrst samningar virðast ekki ganga nógu vel.