138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það frumvarp sem ég hef hér mælt fyrir nær ekki til þess að sólarbekkir eða ljósabekkir séu í heimahúsum heldur er þetta tengt atvinnurekstri eins og skýrt kemur fram í frumvarpinu. Ástæða fyrir því að frumvarpið er lagt fram er, eins og ég rakti og kemur greinilega fram í greinargerðinni, í fyrsta lagi það að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur nú skilgreint útfjólubláa geislun sem krabbameinsvald. Í öðru lagi að sameiginlegur fundur norrænu geislavarnastofnananna ályktaði um þetta efni síðastliðið haust og hvatti til þess að slíkt bann yrði sett á Norðurlöndunum. Í þriðja lagi að Geislavarnir ríkisins hafa lagt til við heilbrigðisráðuneytið að það hlutist til um að slíkt bann verði sett á hér á landi. Þetta eru ástæðurnar fyrir því frumvarpi sem hér er lagt fram.

Ég vek athygli á því að ekki er verið að banna fólki alfarið að nota þessa ljósabekki. Það er verið að setja tiltekið aldursmark og það er verið að koma í veg fyrir að börn innan 18 ára aldurs lendi í hættulegri útfjólublárri geislun sem skilgreind er sem krabbameinsvaldur.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um starfsmenn á ljósastofum og aldurstakmark þar, hygg ég að starfið á ljósabekkjastofum eða sólbaðsstofum sé ekki fólgið í því að liggja í ljósabekk.