140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

endurreisn SpKef.

[10:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg málefnalegt að spyrja eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði: Hefði verið hægt með öðrum aðferðum á þessum millibilstíma að halda betur utan um eignasafnið, hefði verið hægt að koma í veg fyrir að það rýrnaði hafi það verið að rýrna á þessum tíma eða var það svona ónýtt í grunninn og hefði það litlu breytt? Það er málefnaleg spurning. En það er ómálefnalegt að reyna að færa ábyrgðina af rekstri þessara fyrirtækja, á meðan þau voru sjálfstæð og Fjármálaeftirlitið veitti þeim starfsleyfi eða undanþágur til að starfa, yfir á einhverja aðra en þá sem þá ábyrgð eiga að bera. Það voru engir góðir kostir í stöðunni og það má spyrja sig endalausra spurninga um það, hvernig hefði verið hægt að lágmarka tjónið allt frá því langt fyrir hrun? Hefði ekki verið hægt að draga mikið úr skaða Íslands ef menn hefðu árið 2006 tekið þær aðvaranir sem þá komu upp alvarlega og gert eitthvað? En eitt er ljóst og það er að það eru fáir kostir góðir og engir reyndar í stöðunni þegar svo er komið sem raun ber vitni frá og með bankahruninu í október 2008. Það eru eingöngu spurning um hvað eru illskástu leiðirnar og þær hafa menn reynt að velja í hverju tilviki.

Ríkið setti enga nýja fjármuni inn í Saga Capital og VBS og Askar svo því sé nú enn einu sinni til haga haldið heldur reyndi ríkið að gefa þessum stofnunum tækifæri til að vinna úr sínum málum með því að breyta þegar áföllnum kröfum í lán. Það breytti engu um stöðu ríkisins gagnvart þessum stofnunum og enginn hefur sýnt fram á að ríkið hefði komið betur út úr því — og sennilega hefði það komið verr út úr því ef þessi aðgerð hefði ekki verið gerð. Samt er klifað á því að þarna hafi menn sett inn nýja fjármuni þegar hið rétta er, skjalfest, opinbert og sannreynt, að svo var ekki. Þetta er lýsandi, frú forseti, fyrir það í hvaða leiðangri menn almennt eru að reyna að (Forseti hringir.) gera þessar geysilega erfiðu aðgerðir allar sama tortryggilegar. Eitt var ljóst og það var það, eitt var útgangspunktur, að ekki kom til greina að innstæðueigendur á Suðurnesjum, (Forseti hringir.) Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra yrðu meðhöndlaðir öðruvísi en aðrir innstæðueigendur í landinu. Ríkið eitt gat staðið á bak við yfirlýsinguna um að allar innstæður yrðu tryggðar. (Forseti hringir.) Það gerði það. Það er að kosta mikið því miður en annað kom ekki til greina.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin.)