149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þessa yfirferð og sérstaklega hvernig hann dregur fram hvernig við þurfum að beina sjónum okkar sérstaklega að jaðarsettum hópum sem stöðu sinnar vegna eru oft útsettir fyrir ofbeldi. Mig langar hins vegar að benda honum á að hluti af þeirri gagnrýni sem hann dró fram úr umsögnum er atriði sem við höfum brugðist við.

Fyrst varðandi það að ekki sé nógu vel fjallað um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nefnum við þann samning sérstaklega tvisvar í nefndarálitinu og nefndin gagnrýnir einmitt það að ráðuneytin virðast ekki hafa kallað samtök fatlaðs fólks til samráðs á fyrri stigum. Það er ekki í boði eins og þingmaðurinn nefndi og því er beint til stjórnvalda að gæta þessa við framkvæmd og endurskoðun áætlunarinnar. Þá er sérstaklega talað um mikilvægi þess að efla þekkingu á samningnum um allt stjórnkerfið þannig að nefndin tók utan um þessa gagnrýni og tók í raun það sem Þroskahjálp sagði, og þingmaðurinn las hér, og gerði að sínum ábendingum til ráðuneytanna.

Þingmaðurinn nefndi að ekki væri fjallað um fjárhagslegt ofbeldi. Við gerum það raunar að tillögu okkar að upphafsorð áætlunarinnar, í 1. málslið 2. mgr. I. kafla, innihaldi orðin fjárhagslegt ofbeldi. Það er hérna, þetta er tillaga nefndarinnar.

Varðandi stuðning við frjáls félagasamtök má vissulega taka undir það með þingmanninum að þar þarf að gera betur. Í nefndarálitinu nefnum við lið C.6 um stuðning við svæðisbundnar aðgerðir og við nefnum Jafnréttissjóð sem leiðir í dag til að ná peningum (Forseti hringir.) inn í félagasamtök. Þessu þarf að koma í fastara form til framtíðar en við skilum ekki alveg auðu í þessu heldur.