151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

innleiðing þjónustutengds fjármögnunarkerfis í heilbrigðisþjónustu.

[13:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er nokkuð víðtæk en hún beinir sjónum sínum fyrst og fremst að fjármögnunarkerfinu sem í daglegu tali er kallað DRG. Innleiðingin á þessu kerfi gengur vel. Staðan er í raun og veru sú að tölvukerfin eru að verða tilbúin og innleiðingin á að vera á árinu 2022 fyrir sjúkrahúsin, þ.e. fyrir Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég geri ráð fyrir að það muni ganga eftir, áætlunin er að ganga upp.

DRG hefur í sjálfu sér ekki áhrif á mönnun, hvorki neikvæð né jákvæð áhrif á mönnun út af fyrir sig, af því að ég tók eftir því að hv. þingmaður tengdi umfjöllun um mönnun við innleiðingu DRG. Hins vegar vil ég segja að í samræmi við heilbrigðisstefnu er mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks ein af stærstu áskorununum til framtíðar og einn af meginköflum heilbrigðisstefnunnar. Í samræmi við þá áherslu höfum við sett á laggirnar landsráð um menntun og mönnun í heilbrigðisþjónustu þar sem saman eru komnar meginmenntastofnanir okkar sem og heilbrigðisstofnanir okkar til að stilla saman strengi varðandi framtíðarsýn og uppbyggingu námsframboðs o.s.frv. á heilbrigðissviði.

Varðandi síðan DRG þá semja Sjúkratryggingar Íslands um einingarnar og gera samning við viðkomandi aðila. Framtíðarsýnin er auðvitað sú að það sé gert (Forseti hringir.) með sama hætti í samningum við einkaaðila og þá aðila sem veita þjónustu núna á grundvelli fjárlaga.