151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[14:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Höfuðborgarsáttmálinn er, eins og kom kannski fram hjá hv. þingmanni, annars vegar hugmyndafræði um að forgangsraða tilteknum stofnvegaframkvæmdum yfir tímabil sem sáttmálinn teygir sig yfir, og hins vegar að stórefla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, með því að fara í veglagningu fyrir hjólreiðar og gangbrautir, en líka fyrir vagna, það gætu verið strætisvagnar, gætu verið léttvagnar, allt eftir því hvaða tæknin býður okkur helst upp á þegar að því kemur.

Ég hef alltaf litið þannig á að verkefni okkar og félagsins, sem nú hefur verið komið á fót í samvinnu ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sé að leiðirnar sem kæmu til greina ættu að vera í símati. Það er mjög vel skrifað út í sáttmálanum að framganga hans er auðvitað háð því að það fáist viðvarandi stuðningur hér á þinginu, t.d. hvað fjármagnið snertir. Nú eigum við enn eftir að afsala t.d. Keldnalandinu sem er stór hluti af fjármögnun höfuðborgasáttmálans. En ágreiningurinn sem hv. þingmaður vísar til snýst um það í mínum huga að þeir eru til sérfræðingarnir sem segja að það væri bruðl að taka frá sérstaka akrein fyrir allt strætisvagnakerfið og fyrir allt höfuðborgarsvæðið, sem myndi þýða að stóran hluta dagsins stæði viðkomandi akrein auð. Það myndi duga að taka frá sérstaka akrein á þrengra svæði heildarsvæðisins. Með því að láta vera að teppaleggja fyrir borgarlínu út í ytri mörk alls höfuðborgarsvæðisins væri hægt að spara mikla peninga. Þetta eru hlutir sem ég held að hljóti að vera til nánari skoðunar í nefndinni en hafa að hluta til verið skoðaðir á fyrri stigum máls.