144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sú leið sem hér er rifin fram í gegnum þetta frumvarp er leið sem ég taldi að væri búið að hafna fyrir margt löngu, taldi að báðir þeir flokkar sem að henni standa hefðu fyrir löngu eins og aðrir flokkar komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki hagkvæm leið til þess að fjölga störfum úti á landi. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það séu sanngirnisrök fyrir því að nýsköpun starfa, ekki síst innan opinbera geirans, verði úti á landi. Ég tel að með tækniframförum og breyttum fjarskiptum sé enginn munur á því að vinna sum störf úti á landi alveg eins og hér í Reykjavík.

Ef ég má kannski rekja meira úr minni eigin persónulegu reynslu sem handhafi framkvæmdarvalds þá hef ég farið með forsjá ráðuneytis þar sem starfsmenn unnu störf, beinlínis dagleg störf í ráðuneytinu en áttu heima í fjarlægum löndum. Það gekk mjög vel. Ég sé því enga þverstæðu á milli þess að vinna störf innan stjórnsýslunnar úti á landi og hins vegar þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður hefur um að menn eiga auðvitað ekki að hafa það að sérstöku markmiði að gera það á kostnað þeirra starfa sem eru fyrir hendi.

En það sem vakir aðallega fyrir mér er mín beiska reynsla af því ferðalagi sem ég tók þátt í fyrir 20 árum að þetta er röng aðferð. Hún gengur ekki upp og hún veldur miklum sárindum. Hún setur líf margra úr jafnvægi. Það er sjónarmið sem mér hefur fundist í vaxandi mæli skipta miklu máli.