140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á það sem hv. síðasti ræðumaður talaði um. Ég ætla að leyfa mér í því sambandi að furða mig á þeirri skapvonsku sem kemur fram í bréfi frá æðsta embætti landsins, sem ég ber mikla virðingu fyrir, við mjög eðlilegum spurningum sem berast úr forsætisráðuneytinu, um hver verði viðbrögð forsetaembættisins við spurningum sem lagðar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kom fram sú skoðun að hugsanlega væri rétt að forsetaembættið setti sér siðareglur líkt og ætti við um ráðherra og alþingismenn.

Sú einfalda spurning var lögð fram af embættismanni: Hvert er viðhorf embættis forseta Íslands til þessa? Þá kemur skapvonskubréf hið mesta frá æðsta embætti landsins. Ég hef út af fyrir sig áhyggjur af okkur öllum ef menn sem gegna æðsta embætti landsins geta ekki svarað einföldum spurningum eins og þessum af fyllstu kurteisi heldur fara í vont skap. Ég tel að við á Alþingi þurfum vissulega að huga að því og við þurfum að fara ofan í þær spurningar sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við þurfum þá kannski að spyrja embætti forseta Íslands að því hver viðbrögðin séu við þessum spurningum og þá geri ég ráð fyrir að það komi í rétt pósthólf og eftir réttum línum.