Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli þingheims á grein sem birtist á fréttamiðlinum Vísi í dag og er eftir formann Samtaka um endómetríósu, Lilju Guðmundsdóttur. Þar birta einnig 40 íslenskar konur nöfnin sín og þær upphæðir sem þær hafa greitt úr eigin vasa til að fara í lífsnauðsynlegar aðgerðir vegna endómetríósu. Þessar 40 konur eru á aldrinum 22–64 ára. Þær eru hins vegar 124 alls sem Samtökin hafa vitneskju um sem greitt hafa úr eigin vasa til að komast í nauðsynlegar aðgerðir.

Hæstv. forseti. Þessar konur eru ekki allar hysterískar. En skyldi það vera tilviljun, forseti, að greiðsluþátttaka vegna sjúkdóms sem leggst að mestu leyti og nær einvörðungu á þær sem fæðast með leg sé svo takmörkuð sem raun ber vitni? Hvers vegna er það látið viðgangast að konur sem þjást af endómetríósu séu látnar greiða úr eigin vasa fyrir aðgerðir sem eru algjörlega nauðsynlegar til að bæta lífsgæði þeirra og jafnvel endurreisa þær þannig að þær nái fullri starfsgetu aftur? Hvernig má það vera? Hvernig má vera að við séum enn stödd þar að konur sem glíma við þennan sjúkdóm mæti skilningsleysi, tortryggni og jafnvel óvinveittum hugsunarhætti innan heilbrigðiskerfisins? Hvernig má það vera? Endómetríósa er sjúkdómur sem er mjög kvalafullur þegar hann er sem verstur. Það er ósköp einfaldlega þannig að þessir verkir eru engum bjóðandi, ekki körlum, ekki konum, engum sem eru með leg og engum sem þjást af þessum sjúkdómi.