137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. En hún lenti svona í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig vegna þess að hún sagði að það væri margt sem brynni á þjóðinni, margt sem þyrfti að gera. En samt ætti að taka allan þann tíma og orku í að vinna þetta mál í hv. utanríkismálanefnd á meðan landið brennur, á meðan eitthvað þarf að gera. Þetta er ákveðin mótsögn finnst mér.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann. Vill hv. þingmaður ganga í Evrópusambandið? Ef nei, þá er önnur spurning: Vill hv. þingmaður engu að síður sækja um aðild að Evrópusambandinu og þá til hvers? Síðan er þriðja spurningin, og þá kem ég inn á það sem hv. þingmaður gat um. Nú er mikil vá fyrir dyrum, koma þarf bönkunum í gang, lækka þarf stýrivexti, gera þarf heilmiklar ráðstafanir og eiginlega ætti þingið og öll ríkisstjórnin að vera upptekið af því alla daga. Telur hv. þingmaður í þessari stöðu ástæðu til að eyða tíma þingsins fyrst og síðan tíma ráðuneyta? Þau verða upptekin af þessu í tvö, þrjú ár, og allt meira og minna undirlagt af því að sækja um Evrópusambandið.

Telur hv. þingmaður í þessari stöðu rétt að styðja beiðni um aðild að Evrópusambandinu? Væri hv. þingmaður tilbúin til þess að fresta því svo sem eins og um tvö ár? Vegna þess að þetta breytir í sjálfu sér engu varðandi það að taka upp evru eða annað slíkt. Það breytir engu. (Gripið fram í: Það er rangt.) Vegna þess að við tökum ekki upp evruna fyrr en við erum búin að uppfylla Maastricht-skilyrðin og það gerist óháð því hvort við göngum inn í Evrópusambandið eða ekki. Það má meira að segja rökstyðja það. Ef við værum dugleg við að koma vandanum í lag, vanda heimilanna, fjölskyldnanna og fyrirtækjanna þá uppfyllum við Maastricht-skilyrðin fyrr.