Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. ráðherra. Ég ætla að nota tækifærið hér og ræða endómetríósu. Ástæðan er sú að það eru nánast akkúrat átta mánuðir síðan ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann teldi ekki fýsilegan kost að ganga til samninga við Klíníkina vegna þess að þar var kominn til starfa sérfræðingur sem er talinn sá besti í faginu. Hæstv. ráðherra brást mjög vel við fyrirspurn minni og sagði að þetta yrði tekið til skoðunar og framkvæmdar bara nokkrum dögum síðar. Hann sagði, með leyfi forseta: „Ég vonast til þess að á næstu dögum verði gengið frá því að þessi meðferð verði í boði.“

Síðan hefur ekkert frést, ekkert gerst. Í morgun birtist grein á Vísi, minnir mig, eftir Lilju Guðmundsdóttur, formann samtakanna, þar sem hún tekur til 40 konur sem hafa greitt úr eigin vasa yfir 800.000 hver til þess að fá bót meina sinna. Það er núna komin sú staða upp að við getum ekki endalaust verið að tala um þessi mál hér í þingsal eða í samfélaginu. Nú verður ráðherra að standa við þau loforð sem hann gaf hvað sem líður miðlægum biðlistum á Landspítala. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)