150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við sjáum einmitt vísi að þessu í samgönguáætluninni eins og hún er núna. Það er verið að leggja til jarðgangaáætlun sem ég tel vera mjög jákvæða þróun í átt að því að fá heildstæða mynd af því hvernig við klárum það verkefni. En vandamálið er að við sjáum ekki hvernig því lýkur. Við sjáum ekki hvernig samgöngukerfið á Íslandi verður þegar búið er að klára öll jarðgöngin. Án þess getum við mun síður tekið ákvarðanir um það hvaða verkefni er best að vinna mest. Á sama hátt er einmitt verið að koma með samgöngusáttmálann — virðulegi forseti, voru það ekki 2 mín. í síðari umferð?

(Forseti (WÞÞ): 1 mín. í síðari umferð.)

Hvað varðar samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu þá eru annars konar lausnir en þarf víða annars staðar á landinu, bara út af þéttleika byggðar o.s.frv. Mig langaði til að velta upp þessum skorti á heildarsýn til að geta verið með þessar sérstöku áætlanir fyrir landshluta, fyrir höfuðborgarsvæðið sérstaklega, og svo er það líka stórhöfuðborgarsvæðið, annað plan út frá því, og síðan jarðgangaáætlun og annað slíkt. Án þess að vera með stóra planið, (Forseti hringir.) sjá heildarmyndina með þessu þétta neti eins og hv. þingmaður talaði um, þá getum við mun verr gert áætlanir fyrir næstu ár.