150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:33]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvelt að svara þessu. Ég treysti meiri hluta borgarstjórnar til að forgangsraða rétt hvað þetta varðar. Ég skil þá áherslu sem meiri hlutinn leggur á borgarlínuna og styð það. Hins vegar er starfshópur einmitt að vinna að Sundabrautinni og lausnum á legu brautarinnar. Ég trúi því að þegar sá hópur skilar af sér muni það skila sér í því að farið verði í verkið hratt og örugglega. En af því að hv. þingmaður sagðist þekkja vel til almenningssamgangna erlendis, hef ég mjög mikinn skilning á því, sérstaklega þegar ég er að keyra í umferðinni á morgnana, að þessi áhersla sé lögð á að koma borgarlínunni í gagnið og bæta almenningssamgöngur, þannig að í sjálfu sér hef ég ekki neitt við þá forgangsröðun að athuga.