150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður áttum orðaskipti við síðustu ræðu hans um skýrslu um kostnaðar- og ábatagreiningu sem hv. þingmaður hafði ekki lesið. Ég sendi honum skýrsluna við það tækifæri fyrir rúmri viku síðan. Mig langar að fræðast um hvort þingmaðurinn hafi síðan þá kynnt sér þá skýrslu og greiningu. Ég sendi nokkurra punkta yfirlit yfir það sem skiptir máli þar og benti honum á atriði sem hann var að fjalla um í ræðu sinni.

Miðað við þá skýrslu og þá umræðu sem hefur farið fram hér er Miðflokkurinn í raun ekki með tillögur um hvað á að gera annað í staðinn fyrir borgarlínu. Hann fettir fingur út í kostnaðinn af borgarlínunni en er ekki með neitt annað í staðinn. Og miðað við einmitt þá skýrslu og niðurstöður hennar langar mig einfaldlega að spyrja: Af hverju er Miðflokkurinn á móti ábata? Í skýrslunni er farið yfir hvernig ábatinn verður a.m.k. 115 milljarðar á 25 árum á meðan aukinn rekstrarkostnaður er upp á 9 milljarða fyrir borgarlínu sérstaklega, miðað við að fara í svipaðar framkvæmdir og gert hefur verið. Í staðinn fyrir að gera bara það sama og við höfum alltaf gert förum við í þá uppbyggingu sem nú er í gangi samkvæmt höfuðborgarsáttmálanum. Ábatinn af því er 115 milljarðar á 25 árum eða svo. Er ábatinn ekki einmitt nauðsynlegur í núverandi ástandi? Miðflokkurinn hefur einmitt gagnrýnt, hef ég heyrt, hversu ábyrgðarlaust það sé að fara út í kostnaðarsamar framkvæmdir í þessu árferði, í svo miklum skuldum og halla, þegar fjármálaráð hefur bent okkur á að framkvæmdir sem skila ábata auka ákveðinn stöðugleika og festu (Forseti hringir.) í opinberum fjármálum. Það er ákveðinn fyrirsjáanleiki þar (Forseti hringir.) og ávöxtun til framtíðar.