136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

staðgöngumæðrun.

[11:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki í salnum. Ég mundi gjarnan vilja fá hann í salinn áður en ég hef mál mitt.

(Forseti (GuðbH): Hæstv. ráðherra er hér í hliðarsal og kemur eftir augnablik.)

Ég vil fá að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvað líði störfum vinnuhóps sem skoða á siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi.

Forsaga málsins er sú að í september beindi ég fyrirspurn til þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta mál og ákvað ráðherra þá í framhaldinu að hópurinn skyldi settur á laggirnar. Skipan hópsins dróst þó eitthvað vegna þeirra aðstæðna sem upp komu fljótlega þar á eftir en ég veit til þess að hann var svo skipaður í janúar.

Staðgöngumæðrun er eitt þeirra úrræða sem konur, sem af einhverjum ástæðum geta ekki eignast börn, hafa til þess að grípa til. En þetta er ekki einfalt mál og þarf að skoða það út frá ýmsum hliðum áður en gerð er lagabreyting hér á landi eða ákvörðun tekin um það hvort þetta skuli leyft eða ekki og þess vegna var þessi hópur skipaður. Það er mjög mikilvægt, ef ákvörðun yrði tekin um það að fara í breytingar af þessu tagi, að almenn sátt ríki um það og þess vegna er mikilvægt að sem flestir aðilar komi að því að skoða þetta áður en þetta fer í almenna umræðu. Við þurfum að geta farið yfir þessi mál fordómalaust og með allar upplýsingar fyrir framan okkur áður en ákvörðun um breytingar — ef við viljum gera breytingar — verður tekin, um að þetta verði leyfilegt. Eins og staðan er nú geta konur og tilvonandi foreldrar farið til útlanda og gert þetta. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort niðurstöðu umrædds starfshóps sé að vænta.