149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er verið að greiða atkvæði um mál sem snýst um það að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Í gær var hafnað tillögum okkar í minni hlutanum, okkar Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, um að fara skyldi í ríkari auðlindarentu hvað það varðar. Ég bendi líka á, eins og ég hef sagt í ræðu í dag, að það gjald sem þó er tekið og var samþykkt að skyldi taka á að endurskoða eftir eitt og hálft ár. Við skulum sjá til. Eftir þann grátkór sem við heyrðum í nefndinni í gær þegar Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi komu og töluðu um að þetta væri ekki arðbært miðað við þau skilyrði sem er verið að setja upp, það var alla vega vafi um það, eigum við annaðhvort eftir að heyra það í lokin að það þurfi að lækka þau litlu gjöld sem þó eru sett á þessa starfsemi, eða þá að menn munu kalla eftir því að það þurfi að víkka út og bæta við — þar sem það sem þegar er verið að setja þarna, það þeir vilja fá og fer inn í gamla kerfið, er umfram áhættumatið sjálft, sem þeir tala um að sé lifandi plagg.

Þetta hef ég nefnt og bent á og við skulum horfa á hvernig þetta á eftir að þróast. Það er ekki heiðarlega að því staðið hvað raunverulega er á vogarskálunum þegar þetta er samþykkt svona. Ég mun greiða atkvæði gegn báðum breytingartillögunum (Forseti hringir.) nema því sem fylgir nefndaráliti þar sem er þó verið að laga mikið varðandi umhverfismálin sem líka hefur verið gert í heildina með þetta mál og það má segja að það hafi verið vel gert.