149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þannig er mál með vexti að þetta mál hefur sem betur fer tekið ýmsum jákvæðum breytingum í þeim meðförum sem hafa verið undanfarin hartnær tvö ár, síðan menn byrjuðu að vinna með þetta. Þær skilja málið engu að síður eftir á þeim stað að hér um bil allir, nema þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, telja skynsamlegt að við gefum okkur aðeins meiri tíma til að vinna það.

Landssamband veiðiréttarhafa er þeirrar skoðunar að við ættum að taka okkur tíma til að skoða málið betur. Eldisfyrirtækin eru sömu skoðunar. Við erum á þeim stað að við ættum að stíga eitt skref til baka og leita leiða til að gera þetta svolítið betur. Það er sem betur fer hugað prýðilega að umhverfisverndarþáttunum en þar má bæta ákveðna hluti. 8. gr. er því miður með þeim hætti að mjög miður er og ég held að við göngum ekki til góðs hvað skurðpunktinn varðar (Forseti hringir.) í tengslum við leyfisveitingarnar.