150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:54]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar og ég hjó eftir því að hann hygðist leggja fram breytingartillögu sem sneri að lyfjanefnd Landspítala. Mig langaði svolítið að heyra betur ofan í þetta. Ég er sjálf með breytingartillögu sem fjallar einmitt um þessa sömu lyfjanefnd þar sem ég vil breyta henni í lyfjanefnd sjúkrahúsa til þess að hún taki betur yfir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir um allt land. Mér finnst svolítið sérstakt að heyra þetta núna. Það hefur verið mikil gagnrýni á akkúrat þetta atriði eins og hv. þingmaður kom vel inn á. Þess vegna þætti mér vænt um að heyra hvort þessi tillaga sé klár þannig að við, aðrir nefndarmenn, getum glöggvað okkur almennilega á henni og svo hvort það hafi ekkert verið inni í myndinni að taka bara breytingartillögu mína til greina og samþykkja hana.