150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[18:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki ætlunin að koma hingað í andsvar enda um það samið að ekki væri farið í andsvör. Ég vona að hæstv. forseti líti ekki svo á að samkomulag sé rofið með því að maður fari í andsvar við hann. En ræða hæstv. forseta var með þeim hætti að það er ekki hægt annað en að bregðast við. Að sjálfsögðu styðjum við öll allar tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að forða fólki frá sárafátækt. Að sjálfsögðu gerum við það. Að sjálfsögðu. Og það að láta einhvern veginn líta út fyrir að sú sem hér stendur sé á móti því er ansi bíræfið. Fyrirvari minn á þessu snýr eingöngu að því að svo naumt sé skammtað að það sé ekki hægt að veita þessum hópi fullan stuðning. Þetta er lítill hópur eins og sést á nefndaráliti. Það er verið að tala um að þrír einstaklingar á ári eigi rétt á fullum stuðningi, þrír. Kostnaðurinn við það eru 14 millj. kr. á ári, herra forseti, 14 millj. kr. Þetta eru ekki slíkar fjárhæðir að við getum ekki leyft þeim sem eiga engan annan sjóð, fá engan annan stuðning — af hverju getum við ekki leyft þeim að fá 100% stuðning frá okkur? Hvers vegna ákveðum við að hafa það 90% af þessum lágmarkslífeyri sem er eins og við vitum ekki fullnægjandi í framfærslulegu tilliti? Hvers vegna ekki?