150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[11:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um mjög gott mál varðandi félagslegan viðbótarstuðning fyrir þá sem eru verst settir í hópi aldraðra. Lengi hefur verið beðið eftir þessu máli. Hér er verið að styrkja framfærslu aldraðra sem búsettir eru hér á landi og eiga engan eða lítinn rétt í lífeyriskerfinu eða almannatryggingakerfinu. Í þessum hópi, sem á takmörkuð réttindi og treyst hefur mikið á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, eru konur fleiri en karlar og 50% eru erlendir ríkisborgarar, 67 ára og eldri með búsetu á Íslandi og hafa búið við mjög kröpp kjör. Þetta er gott mál og ég er mjög ánægð með að við séum að styðja þarna við þá hópa sem eru verst settir í samfélagi okkar og löngu kominn tími til.