143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[11:42]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir máli sem ég mælti fyrir á 141. löggjafarþingi. Það náði ekki fram að ganga þá en hlaut hins vegar jákvæða efnislega umfjöllun hjá velferðarnefnd sem lagði til að það yrði samþykkt óbreytt, en því miður komst það ekki til síðari umr. í þingsal. Þetta er tillaga til þingsályktunar sem við, núna þingmenn Bjartrar framtíðar, leggjum fram um að komið verði á jöfnu búsetuformi barna sem búa á tveimur heimilum.

Tillagan gengur út á það að fela innanríkisráðherra að skipa þriggja manna starfshóp sem skili tillögum um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum. Það er þá markmið starfshópsins að útfæra bestu mögulegu lausnina sem hentar slíkum börnum. Við teljum að það geti falist í því að útfært verði nýtt lagalegt hugtak jafnrar búsetu sem sé þá hugtak sem er stutt lagaumgjörð og leiði til þess að aðstöðumunur milli tveggja heimila, þegar börn búa á tveimur heimilum, verði jafnaður út vegna þess að hann er mjög mikill eins og er. Hins vegar er hægt að fara þá leið að taka einfaldlega upp leyfi fyrir börn til að búa á tveimur heimilum, þ.e. hafa tvöfalt lögheimili. Ég hef spurst fyrir hjá Þjóðskrá hvort þetta sé flókið og svörin sem ég fékk þar voru að svo væri í raun og veru ekki. Þetta er því mögulegt.

Af hverju leggjum við þetta til? Það er náttúrlega vegna þess að veruleikinn er sá að mörg börn búa á tveimur heimilum eftir skilnað og okkar sannfæring er að löggjöfina eigi sem mest að sníða að veruleikanum, að reyna að koma til móts við hann og gera fólki auðveldara fyrir að lifa því lífi sem það kýs í þessum efnum. Í barnalöggjöfinni er algjörlega gert ráð fyrir að börn búi bara á einum stað, það er talað um „þar sem barn býr“ þannig að í lagarammanum utan um þessi mál er ekki gert ráð fyrir þessum möguleika, að eftir skilnað búi barn í raun og veru hjá báðum foreldrum sínum jafnt og til skiptis. Þá heitir í löggjöfinni annað foreldrið lögheimilisforeldri og hitt umgengnisforeldri. Eins og löggjöfin er núna býr barnið bara hjá lögheimilisforeldrinu. Öllum bótum er beint til lögheimilisforeldrisins og lögheimilisforeldrið getur tekið miklar ákvarðanir um hag barnsins samkvæmt löggjöfinni. Núna er vissulega hægt að fara samkvæmt nýju barnalögunum í málarekstur um það hvar lögheimilið eigi að vera en aðstöðumunurinn á milli lögheimilisins og umgengnisheimilisins er mjög mikill og ekki síður öll stofnanaumgjörðin. Ef til dæmis á að opna bankareikning fyrir barnið er það mjög erfitt fyrir umgengnisforeldrið en auðvelt fyrir lögheimilisforeldrið. Aðgangur að Rafrænni Reykjavík er til dæmis bundinn lögheimilisforeldrinu og það er ýmislegt svona í stofnanaumgjörðinni, ef á að opna símreikning fyrir barnið verður lögheimilisforeldrið að gera það. Þetta er allt svona þrátt fyrir að barnið búi í raun og veru á tveimur heimilum.

Við leggjum sem sagt til að við förum í þá vinnu, eins og margar þjóðir hafa gert, að búa til lagaramma sem styður það form að börn búi á tveimur heimilum og það styðji formið þannig að aðstöðumunurinn sé jafnaður út eftir fremsta megni á milli þessara heimila. Við leggjum þetta ekki síst til vegna þess að nýlegar rannsóknir hafa sýnt að eftir skilnað er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að eiga samskipti við báða foreldra. Rannsóknir sýna að eftir skilnað líður þessum börnum sem njóta aðgengis og umgengni við báða foreldra sína jafn vel og þeim börnum sem búa hjá báðum foreldrum sínum. Sá þáttur að eiga umgengni við báða foreldra sína eftir skilnað er svo mikilvægur. Um 5% barna á Íslandi búa við þessi skilyrði, jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum.

Okkur finnst að við verðum að búa til lagaramma sem styður þetta og sem gerir foreldrum auðveldara að bjóða börnum sínum upp á þessa lausn eftir skilnað. Við eigum svolítið langt í land í þeim efnum þegar löggjöfin er annars vegar. Við leggjum því til, og vonumst náttúrlega til að nú sem fyrr fái málið jákvæða, efnislega umfjöllun á Alþingi, að farið verði í þá vinnu sem er fyrsta skrefið að búa til hentuga lagalega umgjörð fyrir börn sem búa á tveimur heimilum. Ég legg líka áherslu á að það sem kemur til álita í því er að skoða hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi til að börn geti notið þessa lagaramma, jafns búsetuforms eða tvöfalds lögheimilis. Sumir hafa nefnt að heimilin þurfi að vera í sama skólahverfi eða að minnsta kosti í samliggjandi skólahverfum og auðvitað þarf að vera sátt, a.m.k. upp að tilfinnanlegu marki, milli foreldranna um þetta fyrirkomulag og þar fram eftir götunum.

Við leggjum sem sagt til að starfshópur á vegum innanríkisráðherra, faglega skipaður, fari í það að búa til þessa umgjörð. Það er víðtæk þörf fyrir það í samfélaginu, þetta snertir líf margra, þetta snertir jafnréttismál, þetta snertir stöðu kynjanna innan heimilis og á vinnumarkaði en þetta snertir fyrst og síðast hagsæld barna.