145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er síst að barma mér undan þeirri umræðu sem kom upp í þinginu. Ég minnist þess meira að segja að það var ekki algengt að maður fengi á sig óundirbúna fyrirspurn frá félaga í ríkisstjórnarflokkunum en hv. þm. Kristján Möller var ekkert að hlífa mér varðandi byggingarreglugerð. Við áttum hér í orðaskiptum, a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar, um nákvæmlega þessi mál og ég tek undir að það var mikilvægt að fá upp umræðu um þá nálgun sem snerist um einangrunina. Það var mikilvægt að þarna var um að ræða þann eina einstaka þátt sem olli mestri hækkun á byggingarkostnaði. Um leið og búið var að taka þá breytingu til baka hafði mjög mikið gerst. Umræðan núna er að mörgu leyti eins og ekkert hafi breyst frá fyrstu útgáfu reglugerðarinnar á síðasta kjörtímabili. Það er það sem ég vil segja og halda til haga.

Eins og hv. þingmaður segir og ég tek innilega undir hjálpaði umræðan til en á sama hátt vil ég halda til haga þeim þáttum sem lúta að aðgengismálunum. Ég leyfi mér að taka undir orð forstjóra Mannvirkjastofnunar sem kom á fund þar sem var verið að ræða þessi mál. Menn höfðu áhyggjur af því að það væri verið að gera of miklar kröfur um aðgengi og hann sagði í þó nokkuð kaldhæðnislegum tóni: Ég bið fólk að róa sig, það er enn til fullt af stöðum á Íslandi þar sem fólk kemst aldrei nokkurn tíma í hjólastól.