138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég harma að hv. þingmaður hafi misskilið orð mín þannig að ég telji að séreignarstefnan sé eingöngu vandi vegna fjármögnunar. Það sem ég var að benda á er að í leigukerfi er hægt að bjóða upp á meiri sveigjanleika á markaði á stundum þegar erfiðleikar eru í efnahagslífi. Margþættar rannsóknir, til að mynda í Svíþjóð, hafa sýnt fram á að blandað framboð á húsnæði — séreign, búseturéttur og leiga — sé mjög jákvætt fyrir atvinnulífið. Það ýti til að mynda undir hreyfanleika vinnuafls. Ég held að það sé fullkomlega tímabært fyrir Ísland sem nútímaríki, sem vill sveigjanlegt atvinnulíf og er hluti af hinum hnattvædda heimi, að laga húsnæðismarkaðinn að breyttum aðstæðum.

Ég held að breytingarnar sem fram koma í frumvarpinu séu til þess hugsaðar að fólk, sem hefur lent í vandræðum vegna húsnæðislána, geti átt möguleika á langtímaleigu. Þá býr það við húsnæðisöryggi enda sagði ég að ég teldi að þarna væri kominn vísir að nýju kerfi. Ég held að þarna sé verið að bregðast við þeim tímabundnu aðstæðum sem nú eru uppi. Það er jafnframt kveðið skýrt á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að það eigi að laga húsnæðismarkað á Íslandi að því sem gerist i öðrum norrænum ríkjum.

Húsnæðismál eru náttúrlega tvíþætt. Annars vegar eru þau mikilvægur þáttur í efnahagslífinu því þar er um að ræða miklar fjárfestingar, en þau eru jafnframt grundvallarvelferðarmál. Þegar við hugum að húsnæðismarkaðnum þurfum við alltaf að hafa þetta tvennt í huga. Velferðin má ekki verða á kostnað efnahagslífsins og efnahagslífið má ekki valda því að (Forseti hringir.) grundvallarforsendum velferðar sé kippt undan heimilunum.