150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að bresta á hér með langri ræðu, sem maður byrjar alltaf á því að segja áður en maður heldur langa ræðu, en mig langar til að byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen. Ég vil þakka henni fyrir ræðu hennar sem var góð og tilfinningarík. Ég vil þakka henni fyrir seigluna í þessu máli. Ég vil þakka henni fyrir alla vinnuna sem hún hefur lagt í þetta og eljuna við að reyna að fá stjórnarþingmenn til að vera stundum trúir sannfæringu sinni og stundum trúir stefnu flokka sinna. Ég vil þakka henni fyrir að kenna okkur allt sem hún hefur lesið um þessi fræði. Ég er farin að hljóma eins og ég sé stödd í afmælisveislu hv. þm. Halldóru Mogensen, en það er nú samt þannig að þetta mál væri ekki hér ef ekki væri fyrir hennar seiglu af því að hún brennur svo sannarlega fyrir þessari afglæpavæðingu og skaðaminnkandi meðferð fíkla af öllum stærðum og gerðum.

Það var mér ánægja að fá að vera meðflutningsmaður á þessu máli af því að ég hef mikla trú á því að afnám refsinga og skaðaminnkun muni bjarga mannslífum. Mér finnst í rauninni mjög sorglegt að finna þau átök sem verða í þinghúsinu um mannúðarmál eins og þau sem við erum að fjalla um hér í kvöld. Mér finnst það óþægilegt. Í rauninni ættum við að geta komið okkur saman um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lina þjáningar þeirra sem glíma við fíknivanda. Fíkn er heilbrigðisvandamál og við eigum að fjalla um fíknivandann á þeim vettvangi, út frá því sjónarhorni, en ekki út frá refsistefnu, út frá fordæmingu og útskúfun. Því miður eimir enn of mikið eftir af þeirri útskúfun í huga margra hér innan húss eins og annars staðar í samfélaginu. Og við þurfum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir.

Mýtan um fíkniefnalaust Ísland árið 2000 er dauð. Refsistefnan hefur engu skilað, engu. Í störfum mínum sem lögmaður hitti ég oft fólk sem glímdi við þann vanda að vera fíkill. Oftsinnis fékk ég að heyra sögur af fólki sem var frelsissvipt, sem þorði ekki að hringja á lögreglu sér til aðstoðar, sem var statt í veislu og þorði ekki að hringja á sjúkrabíl til að aðstoða vini sína sem voru í vanda o.s.frv. Þetta er hluti af því máli, að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll sem hægt væri að koma í veg fyrir, t.d. ef þeir sem eru í kringum viðkomandi fíkil þora að hringja á lögreglu og sjúkrabíl sér til aðstoðar. Það verður áfram refsivert að selja fíkniefni. Það verður áfram refsivert að fíkniefni gangi kaupum og sölum. En verði þetta frumvarp samþykkt þá verður ekki refsivert að vera með neysluskammta á sér.

En af því að þetta mál kemur ekki úr réttri átt, frá réttum flokki, frá réttum þingmanni þá virðast þingmenn stjórnarflokkanna, sem á tyllidögum segjast fylgjandi skaðaminnkun, ekki mega styðja þetta mál. Það finnst mér alveg ótrúlega sorglegt. Ég endurtek: Þetta er mannúðarmál. Þetta er ekkert annað en mannúðarmál. Og þetta er heilbrigðismál. Þess vegna er í rauninni alveg óskiljanlegt að við skulum ekki öll 63 styðja þetta mál.

Lagðar eru til breytingar á málinu sem eru til bóta og koma til móts við þær ábendingar sem við fengum í nefndinni. Þetta mál var fullunnið hér fyrir áramót þegar við í hv. velferðarnefnd vorum vikum saman að fást við þingmannamál vegna þess að engin stjórnarmál komu inn í nefndina fyrr en í lok nóvember á síðasta ári. Þess vegna tókst okkur að klára gestakomur í málinu og fullvinna nefndarálit. Okkur tókst að gera það þannig að við ræddum meira að segja nefndarálitið á tveimur nefndarfundum án gesta. Það var fullbúið áður en við fórum í jólahlé. Þess vegna er það ekki rétt að málið sé ekki fullbúið.

Mig langar líka að segja eina sögu. Hún er af lögreglumanninum sem leyfir þeim sem hann aðstoðar að láta fíkniefnin, sem viðkomandi fíkill er með í fórum sínum, detta á gólfið í lögreglubílnum og skilja þau eftir þar án afleiðinga af því að lögreglumaðurinn lítur svo á að með því sé hann í skaðaminnkandi aðgerð. Lögreglumaðurinn var samt ekkert endilega viss um að hann væri fylgjandi afglæpavæðingu, en þegar lögreglumanninum var bent á að hann væri í rauninni að framkvæma afglæpavæðingu án þess að hafa fyrir því lagastoð þá jánkaði hann því. Hann leit svo á að mannúðlegri meðferð gagnvart fíklum kæmi þeim mun betur til aðstoðar en refsistefnan sem lögin þó fyrirskipa.

Mig langar eiginlega að láta þetta að vera lokasöguna í kvöld í ræðu minni og ljúka svo ræðunni á því að segja aftur: Takk, hv. þm. Halldóra Mogensen, fyrir seigluna.