150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.

38. mál
[02:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Innflytjendur standa höllum fæti en Ísland er ekki einsdæmi. Við sjáum þetta á launakjörum fólks á vinnumarkaðnum. Reynsla annarra þjóða sýnir einnig að launakjör innflytjenda eru lakari en innfæddra. Þeir eiga á brattann að sækja á húsnæðismarkaði, mun færri að hefja framhaldsnám og enn færri ljúka framhaldsnámi en innfæddir; hátt brottfall og lítill stuðningur í skólakerfinu. Við metum líka með ófullnægjandi hætti menntun innflytjenda og viðurkennum ekki vel fagleg réttindi. Rannsóknir sýna að þær þjóðir sem leggja áherslu á og setja í forgang vandaða aðlögun innflytjenda að vinnumarkaði og að samfélagi uppskera mestan ábata. Ísland á að vera í þeim hópi. Mér sýnist víðtækur stuðningur vera við þessa tillögu og fyrir það erum við í Samfylkingunni þakklát. Ég bið þingheim og landsmenn alla að taka eftir því hverjir treysta sér ekki til að styðja þá stefnu sem við leggjum til.