149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er víða komið við í þessum athugasemdum. Ég skal gera mitt besta til að bregðast við. Höfum við raunverulegan rétt til að velja og hafna EES-samstarfinu? Já, við höfum samningsbundinn rétt til þess að neita að taka upp í íslenskan rétt tilteknar reglugerðir eða tilskipanir. Við getum gert það. Er það okkar frjálsa val? Já, við getum tekið það val alveg óháð þrýstingi, en hverjar afleiðingarnar verða í EES-samstarfinu fer eftir atvikum máls. Stundum er hægt að ná samkomulagi um þetta og fá undanþágur, einhverjar aðlaganir o.s.frv. Stundum er um að ræða slík grundvallaratriði að mati þeirra sem standa að samningnum að ekki verður um það samið án afleiðinga. Þetta er meðal þess sem ég vakti athygli á áðan, að þegar mál eru gengin þetta langt og búið er að leiða fram niðurstöðu í sameiginlegu EES-nefndinni hefur það inngrip að beita 102. gr. áhrif á öll EFTA-ríkin. Þetta er grundvallarástæðan fyrir því að Norðmenn hafa haft jafn mikinn áhuga á þessu máli á Íslandi og raun ber vitni, þeir sem urðu undir í umræðunni í Noregi, vegna þess að þeir vilja fá málið aftur á byrjunarreit. Ef við segðum nei hér við afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu er ákvörðunin sem var tekin í sameiginlegu nefndinni ónýt. Þá þarf nýja ákvörðun. Þá fer málið á byrjunarreit, líka í Noregi. Þá þarf nýja þinglega meðferð í Noregi.

Okkur gæti ekki verið meira sama ef við teldum um grundvallarmál að ræða sem þyrfti að grípa inn í. Við myndum gera það. Menn þyrftu bara að kyngja því annars staðar. Sá réttur er til staðar.

Ég vil segja sömuleiðis að það er annað mikilvægt atriði í þessu, hver viðbrögðin verða er eitthvað sem ekki hefur verið niðurneglt. Í mínum huga er útilokað að EES-samstarfið verði í heild sinni í uppnámi. Einstakar gerðir, jafnvel heilu kaflarnir, gætu verið í uppnámi, ekki aðeins gagnvart Íslandi heldur gagnvart EFTA-ríkjunum öllum (Forseti hringir.) og það gæti búið til mjög flókna pólitíska stöðu. Það er útilokað að segja, (Forseti hringir.) það verður að ráðast af atvikum máls, en þá er mikilvægt að hafa í huga (Forseti hringir.) að það er enginn dómstóll til að skjóta málinu til til að fá úrlausn um það. (Forseti hringir.) Ef við verðum ósátt við viðbrögðin sitjum við bara uppi með þau.