150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Varsla neysluskammta fíkniefna hefur verið refsiverð í hartnær 50 ár á Íslandi og víðar um heim með hörmulegum afleiðingum. Stríðið gegn fíkniefnum var og er stríð gegn fólki og þetta stríð er löngu tapað með ómældri, áframhaldandi mannfórn í nafni gjaldþrota stefnu sem hefur einungis leitt af sér meiri neyslu, ódýrari og fleiri vímuefni, skipulagða glæpastarfsemi og hræðilegan og óréttlætanlegan fjölda ótímabærra dauðsfalla.

Þegar refsivæðing vörslu neysluskammta fíkniefna og refsivæðing fíkniefna yfir höfuð tók gildi á Alþingi var umræðan ekki löng. Þetta kom svolítið sem boð að ofan frá Bandaríkjunum, að nú skyldum við vera með í stríðinu gegn fíkniefnum. Ég trúi því að það hafi hvorki fengið mikla né ítarlega umræðu hér að ákveðið hafi verið að jaðarsetja heilan hóp af einstaklingum í samfélagi okkar. Síðan þá hefur vímuefnanotendum verið útskúfað. Þeim hefur verið mismunað. Þeim hefur verið úthýst úr samfélaginu. Þau hafa verið fyrirlitin. Þau hafa verið skilin eftir án aðstoðar. Þeim hefur verið ýtt út í enn verri aðstæður eða þau verið fangelsuð.

Með tímanum hefur ekki lengur þótt alveg nógu fínt að tala fyrir útskúfun fólks í vímuefnavanda. Það er ekki lengur alveg ásættanlegt, a.m.k. í fínni kreðsum. Það þykir eðlilegt að tala um að fólk sem á við vímuefnavanda að stríða kljáist við sjúkdóm en það hefur lítið hreyft við því að veita því fólki sem sagt er að þjáist af sjúkdómi viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Nú, þegar við erum komin með þetta mikilvæga mál alla leiðina hingað í 2. umr., heyrum við rök sem við höfum svo sem heyrt lengi; óttann við að normalísera fíkniefnaneyslu, normalísera vímuefnanotkun.

Frú forseti. Það er ekkert eðlilegt eða normal við að refsa fólki fyrir neyslu vímuefna. Það er bara ekkert eðlilegt við það. Hið normala ástand er óeðlilegt. Eins og staðan er núna þykir það normal að níðast á fólki fyrir að vera veikt. Það er í lögum að refsivert sé að nota vímuefni. Það þykir normal að níðast á börnum fyrir að fikta með fíkniefni. Við erum að leggja til að normalísera það að börn sem fikta geti leitað til lögreglunnar án ótta við afleiðingar, að þau geti óhrædd farið til lögreglunnar og beðið um aðstoð ef vini þeirra verður á og fær sér of stóran skammt. En nei, við viljum frekar að þau séu hrædd við lögregluna, að þau treysti ekki lögreglunni, að þau treysti ekki heilbrigðisstarfsmönnum, að þau vilji ekki leita sér aðstoðar. Ímyndum okkur hversu mörg mannslíf hafa tapast vegna þess að unga fólkið okkar treystir ekki lögreglunni til að hjálpa sér í aðstæðum sem þessum. Eigum við ekki frekar að normalísera það að lögreglan sé til staðar og að lögreglan sé öruggur staður fyrir börn til að leita til verði þeim á, frekar en að það geti komið þeim á sakaskrá, að það geti komið þeim í vandræði og að þau hafi frekar hvata til að leita sér ekki aðstoðar, mögulega með ómældum hræðilegum afleiðingum?

Ég vil segja að skaðaminnkun og sú stefna að hætta að refsa fólki fyrir að neyta vímuefna hafi komist rækilega á dagskrá með tilkomu Pírata í stjórnmálin. Eins og farið hefur verið yfir byrjar þetta mikilvæga mál með því að lögð er fram þingsályktunartillaga árið 2013 sem verður að skýrslu árið 2016 og sú skýrsla er unnin í þverfaglegu samstarfi, m.a. lögreglunnar og landlæknis. Þessir aðilar komust að þeirri niðurstöðu 2016 að hætta ætti að refsa fyrir neyslu. Það samráð sem kallað er eftir nú hefur nú þegar farið fram, mjög ríkulega. En nú á að semja aðra skýrslu. Nú á að láta fólk í vímuefnavanda bíða í nokkur ár í viðbót á meðan annar starfshópur er skipaður, á meðan önnur skýrsla er skrifuð. Og á meðan skal þessi hópur bíða eftir réttlæti.

Mig langar aðeins að tala um frávísunartillöguna sem liggur hér fyrir vegna þess að mér sárnar það sem ég tel bara vera mjög óheiðarlega framsetningu á henni. Í fyrsta lagi kemur fram að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar á lögum þess efnis að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Það er rétt að benda á að breytingartillaga liggur hér fyrir sem tryggir að kaup og móttaka verða áfram refsiverð. Fyrsta setningin er því tæknilega séð ekki rétt. Þótt rétt sé að þetta standi í frumvarpinu ætti flutningsmaður frávísunartillögunnar, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, vel að vita að þetta er hluti af breytingartillögum flutningsmanns sem er í nefnd með hv. þingmanni.

Sömuleiðis er hér haldið fram að hvorki hafi verið haft samráð við lögreglu né heilbrigðisyfirvöld við gerð frumvarpsins. Ég vísaði rétt í þessu til starfshóps sem innihélt heilbrigðisyfirvöld, sem innihélt lögregluna og lögreglan og heilbrigðisyfirvöld komu auðvitað fyrir nefndina.

Í b-lið frávísunartillögunnar er því haldið fram að málið hafi ekki fengið nægilega vinnslu í nefndinni og hafi verið tekið hálfklárað út úr henni. Hið rétta er að málið var tilbúið fyrir áramót en því hefur verið haldið í gíslingu í nefndinni hjá meiri hlutanum frá þeim tíma. (Gripið fram í.) Nefndarmenn í meiri hluta velferðarnefndar höfðu auðvitað fulla burði til þess að óska eftir frekari gestakomum og frekari upplýsingum þá sex mánuði sem málið var strand í nefndinni eftir að við reyndum fyrst að koma því út.

Í c-lið er talað um að þörf sé á frekari skilgreiningu á neysluskömmtum. Jú, ókei, en við færum dómsmálaráðherra þá ákvörðun.

Að lokum vil ég auðvitað benda á það sem mér finnst svo sorglegt, þ.e. að flutningsmaður tillögunnar telur mikilvægt að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til að semja megi skýrslu um málið, aðra skýrslu. Nú skulum við bíða eftir annarri skýrslu, öðrum starfshópi og svo kannski seinna kemur frumvarp.

Þessi ríkisstjórnin er auðvitað með afglæpavæðingu vímuefna á stefnuskrá sinni eða ég hélt það einhvern veginn, ég skildi stefnuskrána þannig. Nú er eitt ár eftir af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar og enn þá bólar ekkert á því. Ef það á að skrifa skýrslu fyrst þá tel ég nú bara útséð um að þessi ríkisstjórn ætli að gera þetta en auðvitað má koma mér skemmtilega á óvart með það.

Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, þessar stofnanir hafa báðar mælt með því að ríki afglæpavæði neysluskammta. Ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár til að gera það sem hún lofaði kjósendum sínum að gera með stjórnarsáttmála og hún hefur ekki gert það. Og nú eigum við að bíða eftir einhverri skýrslu til þess að fá mögulega kannski seinna réttarbót fyrir einn jaðarsettasta hóp á Íslandi. Þetta er auðvitað mjög sorglegt, virðulegi forseti, og alls ekki réttlætanlegt.

Ég vona að þingmenn sjái að við lögðum til sáttatillögu í þessu máli. Við lögðum til þingsályktunartillögu þar sem var skýr tímalína, skýr krafa um að leggja fram frumvarp fyrir áramót. En þetta var of ströng krafa fyrir meiri hlutann. Það var ekki einu sinni hægt að líta við þessari hugmynd okkar, sáttatillögu okkar um hvernig þetta gæti komið frá heilbrigðisráðherra þannig að græni takkinn væri aðeins þægilegri fyrir stjórnarþingmenn. En það var ekki í boði. Sáttaviljinn var því okkar megin. Hann var því miður ekki í stjórnarmegin.