149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér finnst fátt meira lýsandi fyrir umræðuna en vandræði hv. þingmanns við að átta sig á því um hvað ég var að spyrja og svo svara því. Ég var einfaldlega að lesa upp og spyrja um nákvæmlega þau þrjú mál sem eru á dagskrá Alþingis í dag, í þessari ræðu, í þessu andsvari, í þessu svari við andsvari. Ég hefði haldið að hv. þingmaður, sem setur sig vel inn í mál, vissi hvaða mál væru undir umræðunni í dag.

Ég ætla að umorða spurningarnar. Þetta eru ekki nýjar spurningar, hv. þingmaður, engar áhyggjur: Mun hv. þingmaður greiða atkvæði með eða gegn því að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku? Mun hann gera hið sama um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við annað land í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis? Svo var það spurningin um eflingu Orkustofnunar, sem hv. þingmaður svaraði reyndar.

Ég er að spyrja um afstöðu þingmannsins til málanna sem eru til umræðu núna.