138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hans áðan. Það er hins vegar dálítið óþægilegt að ræða jafnflókið en mikilvægt mál nokkrum klukkutímum eftir að við óbreyttir þingmenn höfum fengið það í hendur, sem gerðist seint í gærkvöldi. Ég vil hins vegar beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það væri ekki eðlilegast og sanngjarnast — vegna þess að nú er þetta frumvarp gríðarlega mikilvægt og ég held að allir hér inni séu sammála um það og helst hefði verið nauðsynlegt fyrir okkur að hafa önnur frumvörp hér við höndina þegar við ræðum þetta, svo sem eins og þau frumvörp sem hæstv. ráðherra vitnaði í og hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram en eru núna í endurritun hjá félagsmálanefnd — ég er að velta því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra fyndist það ekki eðlilegt og sanngjarnt ef við getum kallað það skattaklukkuna að hún yrði færð aftur fyrir hrun þannig að allar höfuðstólsniðurfærslur, allar afskriftir á lánum hverju nafni sem þær nefnast, sem færu aftur að höfuðstól láns með einhverjum eðlilegum vöxtum frá þeim tíma, til t.d. 1. janúar 2008, yrðu að öllu leyti skattlausar. Ég hygg líka að þetta frumvarp sé að mörgu leyti of flókið fyrir venjulegan Íslending til að skilja og skynja hver hans réttarstaða er. En ef hæstv. ráðherra getur tekið undir það viðhorf að ríkisvaldið, ríkissjóður, eigi ekki með neinum hætti að gera sér forsendubrest sem varð hér í öllum lána- og skuldamálum íslensku þjóðarinnar að féþúfu þá (Forseti hringir.) væri þetta kannski skynsamlegasta og eðlilegasta leiðin.