144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

siglingalög.

672. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um breytingu á siglingalögum.

Nefndin fékk á sinn fund Gunnar Örn Indriðason og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti og barst ein umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar sem studdi málið með áliti sínu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, til innleiðingar á tveimur EES-gerðum í íslenskan rétt. Annars vegar er lagt til að innleidd verði ákvæði um flutning farþega og farangurs þeirra á sjó. Þar með er Aþenusamningurinn rýmkaður þannig að hann gildi einnig um innanlandssiglingar innan EES.

Áhrif reglugerðarinnar á Íslandi munu væntanlega ekki verða mikil þar sem flest farþegaskip sem sigla við Íslandsstrendur eru ekki í þeim flokki sem reglugerðin tekur til. Við göngum skemur en það sem lengst gæti talist því að okkur er heimilt að sleppa flokkum C, D og E og er misjafnt hvernig Evrópulönd hafa innleitt þessa tilskipun. Við göngum eins skammt og okkur er unnt.

Hins vegar er lagt til með frumvarpinu að lögfest verði refsiheimild vanræki útgerðarmaður að tryggja skip sitt. Við innleiðingu tilskipunarinnar misfórst að taka upp refsiheimild tilskipunarinnar og er þetta frumvarp að bæta úr því.

Það er mjög langt síðan nefndin afgreiddi þetta mál og á þeim tíma síðan nefndin kláraði var talið að þetta næði aðeins til Herjólfs, Dagfara og Baldurs, sem er rétt, ég lét kanna það sérstaklega hvort þetta hefði einhver og þá hvaða áhrif á nýja ferðaþjónustu sem siglir hér hringinn í kringum landið á skipi sem heitir Ocean Diamond. Töldum við, ég og ráðuneytið, að þetta hefði ekki teljandi áhrif á þá útgerð eða þá farþegaflutninga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifar sá sem hér stendur og hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Katrín Jakobsdóttir með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Árnason, Svandís Svavarsdóttir með fyrirvara og Róbert Marshall með fyrirvara.