144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo að umræða um skattamál og ríkisfjármál er oft ansi tæknileg, sem er synd af því að þetta eru ákaflega spennandi og áhugaverðir málaflokkar, ríkisfjármálastefna og skattstefna segja okkur mikið um það samfélag sem býr að baki.

Ég heyrði að hv. formaður fjárlaganefndar sagði áðan að eftir því sem skattarnir væru lægri þeim mun meiri væru tekjur ríkissjóðs. Við fengum líka að heyra þetta þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stjórnuðu síðast Íslandi og þá, til að fá þá kenningu til að virka, til að sýna fram á að þetta rugl væri rétt, var þaninn hér efnahagur landsins sem endaði með því að hann sprakk, Ísland varð því næst gjaldþrota af þeirri stefnu. Nú er verið að keyra hana í gang aftur og það er óskiljanlegt að flokkar, gamlir flokkar sem hafa lengi verið við völd á Íslandi, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, skuli ekki hafa þá burði, sem er alvarlegt fyrir lýðræðið, að endurskoða þessa stefnu sína. En við sjáum hvað er að gerast. Hvað þarf til að þessi gamla kenning þeirra geti aftur farið að virka í smátíma, þangað til allt fer í kaldakol aftur? Jú, í rammaáætlun þarf að smeygja fram hjá nýjum virkjunarkostum, utan við hið lögbundna ferli, því að það þarf að fara að þenja hagkerfið umfram það sem eðlilegt og mögulegt er miðað við efnahagslegt umhverfi. Það er með þeim hætti og ég óttast að lokafjárlögin 2013 séu ekki tónninn sem er sleginn fyrir næstu fjögur ár á eftir. Svo verður það okkar verkefni að vinda ofan af því aftur.