144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[13:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni. Það var nefnilega ógnvænleg staða sem blasti hér við og við vorum í eftir hrun fjármálakerfisins og eftir hrun gjaldmiðilsins. Ég skynja það nú að almenningur á Íslandi hafi eiginlega áttað sig betur á þeirri stöðu en þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Ótrúleg þrautseigja og baráttuvilji einkenndi mikilvægustu stofnanir landsins. Skólakerfið virkaði eins og smurð vél þrátt fyrir erfiðan niðurskurð. Heilbrigðiskerfið virkaði eins og smurð vél þrátt fyrir erfiðan niðurskurð. Það voru stórar kvennastéttir sem héldu Íslandi gangandi eftir hrun fjármálakerfisins. (Gripið fram í.) Þessar stéttir stóðu vörð um heill okkar, heilbrigði og líðan, tóku á móti börnum í skólann, sem bjuggu á heimilum í alvarlegum fjárhagsvanda, tóku á móti fólki sem veiktist ofan á það að vera með alvarlegar áhyggjur af fjármálum sínum. Þetta virkaði allt þrátt fyrir að stóru spilaborgir karlanna væru hrundar. Það eru þessar stéttir sem eiga að njóta þess að Ísland er að ná aftur eðlilegri stöðu í ríkisfjármálum. Það eru þessar stéttir sem ætla ekki að láta sér lynda að vera notaðar eins og þrælar til þess að vinna vinnuna en fá síðan ekki að njóta ágóðans af því sem þær hafa tekið þátt í að skapa.