144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í landbúnaði eftir verkfall dýralækna.

[10:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar líka að beina til hans spurningu um þann mikla fjárdauða sem hefur verið vítt og breitt um landið, á mörgum landsvæðum, og hefur valdið miklu tjóni og eru enn óútskýranlegar ástæður fyrir. Hefur hæstv. ráðherra látið kanna hvað þar er á ferðinni eða látið gera einhverja úttekt á því hvað þarna er á ferð, og þá hver staða bænda er varðandi þetta gríðarlega mikla afurðatjón, sem getur auðvitað leitt til mikils tekjutaps fyrir bændur víða um land? Munu bændur sjálfir þurfa að bera það tjón eða munu sjóðir eins og Bjargráðasjóður koma þar eitthvað inn? Hefur hæstv. ráðherra skoðað möguleika á því að stjórnvöld komi þar að til að bæta það tjón sem bændur verða fyrir?