145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður gera lítið úr áhuga mínum á endurheimt votlendis og áhuga mínum á að leiða fram bestu og réttustu tölur yfir losun sem til eru á hverjum tíma. Mér finnst það skipta mestu máli. Þess vegna er ég ákaflega þakklát og ánægð með að það er þó vísað til þessara talna í þingsályktunartillögunni sem hér liggur fyrir. Margir hafa þráast við og ég hefði getað spurt hins sama, ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann hvort hann trúi þessum tölum eða hvort menn ætli áfram að berja hausnum við steininn og halda því fram að bílar standi undir allri losuninni hér á landi.

Hvað er til ráða? Við hv. þingmaður erum sammála um að það er æskilegt að draga úr þessari losun eins og hægt er. Minn málflutningur hefur verið sá að ef menn eru sammála um það þarf auðvitað að líta á hvar þessi mikla losun er. Ég get svarað því strax: Nei, ég er ekki hlynnt því að ríkið fari að borga t.d. bændum fyrir að moka ofan í skurðina sem þeir fengu áður fyrr í áratugi borgað fyrir að moka upp úr. Stórfyrirtæki á Íslandi hafa t.d. í áratug styrkt verkefni um endurheimt votlendis og fleiri fyrirtæki hafa hug á að gera það. Þetta er verkefni sem margir geta komið að. Hið opinbera á auðvitað að leggja grunn að slíkri vinnu með upplýsingum um staðreyndir í þessu máli, en ríkið á ekki að þvælast fyrir þróuninni, hvorki hvað varðar votlendið né hvaða bílategundir verða hér ríkjandi eftir nokkur ár. Helsta hlutverk ríkisins og hins opinbera er að gefa vísindamönnum, þeim sem þróa hlutina áfram, frið til að þróa þá (Forseti hringir.) og finna bestu lausnina. Ég er t.d. ekkert sammála um það að hið svokallaða vistspor rafbíla sé í rauninni minna en bensínbíla í dag. (Gripið fram í.) Það þarf að gefa markaðnum frið til að finna lausnina á þessu. Ef það er eftirspurn eftir umhverfisvænum bílum, og ég heyri ekki getur en að sé, mun markaðurinn reyna að leysa það eins og best verður á kosið. Ég veit hins vegar fyrir víst að ríkið mun aldrei leysa það.